Fræðsla um sauðfé

Íslensk kind

ærin Nútíð

 

Um kindur

Kindur eru  jórturdýr og klaufdýr. Karlinn heitir hrútur og kvendýrið heitir ær eða kind. Afkvæmið heitir lamb, gimbur eða hrútur eftir því hvort kynið er. Landnámsmenn fluttu sauðkindina með sér ásamt öðrum húsdýrum þegar þeir settust að á Íslandi.

Íslenska sauðféð er með stuttan dindil og tilheyrir því svokölluðu stuttrófufé. Það var algengt um alla Norðvestur-Evrópu áður fyrr en er nú aðeins til á Norðurlöndunum og í Rússlandi, Hjaltlandseyjum, Orkneyjum og Færeyjum.

Íslenski fjárstofninn er harðger og sterkur. Kindur verða oft um eða yfir 10 vetra gamlar og eignast yfirleitt tvö lömb á hverju vori. Þau geta þó verið fleiri, allt upp í 4-5. Fé á Íslandi er ýmist hyrnt, hníflótt, kollótt eða ferhyrnt.

Íslenska féð hefur þá kosti framyfir aðra fjárstofna hve vel hefur tekist til við halda í alla kosti sauðfjárræktar. Ærnar eru mjólkurlagnar, frjósamar, með góð ulla- og kjötgæði. Auk þess sem mikill litafjölbreytileiki hefur varðveist.

Íslenskt sauðfé á beit

Íslenskt sauðfé á beit

Hjá okkur á vorin

Á vorin er mikið að gerast í sveitinni. Þá stendur sauðburðurinn sem hæst, blómin springa út, grasið grænkar og líf kviknar hvert sem litið er. Þá er mikið að gera hjá sauðfjárbændum við að annast lömb, marka þau og setja kindurnar út.

Þegar mesta annatímanum í sauðburðinum lýkur, þarf að fylgja fénu vel eftir svo ekkert komi uppá. Passa þarf uppá beit og velferð kindanna.

Eins þarf að huga að öðrum verkum s.s. að bera á túnin, huga að túnræktinni, gera við girðingar, þrífa innan dyra sem utan og undirbúa sumarstörfin.

Um mánaðarmótin júní- júlí er fénu smalað saman það flokkað, sett á vagna og það ekið í sumarhaga til fjalla. Hrútar og veikburðafé er skilið eftir heima.


Réttir á haustin

Á haustin eru fénu sem var rekið á fjall smalað saman. Okkar kindum er smalað í Reykjaréttir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í réttunum er oft mikið fjör því finna þarf allar kindur og lömb sem tilheyra Egilsstaðakoti og draga í dilkinn okkar.

Í Reykjaréttum

Í Reykjaréttum


Sauðburður

Veturgömul kind ásamt nýfæddu lambi

Öskubuska ásamt nýfæddu lambi

Sauðburður hefst yfirleitt í seinni hluta aprílmánuðar, en ærnar ganga með lömbin í 143 daga, stundum 2 dögum lengur eða skemur.

Sauðburður þykir mörgu sveitafólki vera skemmtilegasti tími ársins. Þá er veturinn á enda, daginn farið að lengja, fuglasöngur í lofti og gróður í miklum vexti. Það að

annast kindur í sauðburði er verk sem hefur breyst mjög lítið í gegnum tíðina. Að mörgu er að hyggja í sauðburði og mikil vinna fylgir honum. Allt heimilisfólkið þarf að bregða sér í ljósmóðurhlutverkið þegar þannig ber undir og vaka þarf yfir kindunum allan sólarhringinn.
Frjósemi ánna fer mikið eftir því hve vel er að þeim búið yfir veturinn. Sé illa fóðrað að haustinu og ærnar leggja mikið af fram á fengitíma þá er hætta á að margar þeirra verði einlembdar. Það er sjaldgæft í dag þar sem nútímabændur eiga yfirleitt alltaf nóg af góðu heyi.

Fengitími

Fengitíminn er frá byrjun desember og fram í janúar. Þá eru valdar saman kindur undir hrúta með ákveðin markmið í huga.

Leitast er við að bæta það sem uppá vantar hjá viðkomandi kind hverju sinni.

Hjá okkur byrjar fengitími eins og hjá mörgum bændum með sæðingum.

Þá eru kindurnar sæddar með sæði úr hrútum sem eru á sauðfjársæðingarstöðvunum, þar er kappkostað að bjóða uppá bestu mögulegu hrútakosti landsins með kjöt- og ullargæði að leiðarljósi.